Gengið hefur verið frá samningum um endurfjármögnun Actavis Group í samvinnu við lánardrottna félagsins. Claudio Albrecht, sem nýlega var ráðinn forstjóri fyrirtækisins, verður nú einnig stjórnarformaður. Í stjórn munu jafnframt setjast reyndir aðilar úr lyfjageiranum.
Fram kom í tilkynningu frá Björgólfi Thor Björgólfssyni í gærkvöldi, að hann verði áfram leiðandi hluthafi í félaginu og sitji í stjórn þess.
Í tilkynningu frá Actavis segir, að félagið starfi nú á heilbrigðum fjárhagslegum grunni og hafi þann styrk og sveigjanleika sem þurfi til að styðja við stefnu félagsins um áframhaldandi vöxt, einkum í Suður-Evrópu, Japan, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og til að auka markaðshlutdeild á núverandi mörkuðum. Félagið muni einnig leggja sérstaka áherslu á líftæknilyf, sem séu dýr í þróun og krefjast því sterkrar fjárhagsstöðu.
Þessar breytingar ásamt öflugum rekstri og nýlegri ráðningu Claudio Albrecht sem forstjóra setji Actavis í kjörstöðu til að ná markmiðum félagsins um vöxt til framtíðar.
Gert er ráð fyrir að endurfjármögnuninni verði formlega lokið að uppfylltum venjubundnum skilyrðum á næstu mánuðum.