Talið er líklegt að fimm af sex grískum bönkum standist álagspróf sem lögð hafa verið fyrir 91 banka í Evrópu, en niðurstöðurnar verða kynntar á morgun. Frá þessu er greint í vefútgáfu Wall Street Journal.
Framkvæmd prófanna hefur verið mikið gagnrýnd undanfarið, nú síðast af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sem segir gagnsæið ekki nægilegt. Mikilvægt sé að allt sé uppi á borðum til þess að slá á tortryggni á mörkuðum.
Af grísku bönkunum sex, sem prófaðir hafa verið, eru fjórir einkareknir. Þeir eru allir taldir hafa sterka eiginfjárstöðu. Hinir bankarnir tveir eru ríkisbankar, og annar þeirra, ATEBank, töluvert veikari en hinn.
Greiningaraðila segja álagsprófin ekki meta hina raunverulega áhættu sem grískir bankar standi frammi fyrir, sem er aðgangur þeirra að lausafé. Fyrirtæki með sterka eiginfjárstöðu getur farið illa mjög hratt hafi það ekki aðgang að lausafé til að greiða skammtímaskuldbindingar.