Greiðslustöðvun Kaupþings rennur út 13. ágúst. Haldinn verður kröfuhafafundur 9. ágúst þar sem fjallað verður um hvort óska eigi eftir framlengingu á greiðslustöðvuninni og samþykki fundurinn það mun Héraðsdómur Reykjavíkur fjalla um þá ósk í kjölfarið.
Bankanum var upphaflega veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 til 13. febrúar 2009. Greiðslustöðvunin var framlengd frá 13. febrúar til 13. nóvember 2009 og síðan um níu mánuði, til 13. ágúst.
Hámarkstími sem, sem hægt er að veita greiðslustöðvun, er 2 ár og því er ekki hægt að framlengja hana lengur en til 24. nóvember í haust. Fram kemur í skýrslu skilanefndar bankans, að þá muni bankinn sjálfkrafa fara í slitameðferð en sú breyting hafi þó ekki áhrif á starfsemi skilanefndarinnar.