Erlendir fjárfestar kynnu að ósekju að halda að gjaldeyrishöftin svokölluðu yrðu afnumin að fullu síðar á árinu.
Í kynningarefni Fjárfestingarstofu, sem ætlað er að upplýsa þá sem hafa áhuga á íslensku viðskiptaumhverfi, kemur fram að gjaldeyrishöftin verði afnumin 30. nóvember næstkomandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag um mál þetta.
Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingarstofu, segir að upplýsingarnar í kynningarefni þeirra séu unnar í samræmi við upplýsingar frá Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Þau svör fengust í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu að engin áform væru uppi um algjört afnám hafta síðar á þessu ári. Heimild Seðlabankans til að takmarka viðskipti gildi til loka næsta árs.