Jón Ásgeir Jóhannesson kaupsýslumaður á rúmlega 650 milljónir króna eignir umfram skuldir hérlendis. Miðað við álagningarskrána á hann enn rúmlega 650 milljónir króna hérlendis. Tekið skal fram að um er að ræða eignir hjóna en auðlegð hjóna er talin saman. Þetta kemur fram í grein Viðskiptablaðsins um auðmenn Íslands í dag.
Jón Ásgeir Jóhannesson sagði í viðtali við RÚV í gær að hann sé að selja eignir hér heima og erlendis til að eiga fyrir vörn sinni vegna málssóknar slitastjórnar Glitnis í New York. Hann segir það af og frá að milljarða króna sé að finna í skattaskjólum og býður skattayfirvöldum að leita af sér allan grun. „Ég myndi geta gefið skattayfirvöldum umboð til að leita alls staðar í heiminum að fjármunum í mínu nafni," sagði Jón Ásgeir í samtali við fréttastofu RÚV. Jón Ásgeir gaf upp eignir að verðmæti 200 milljónir króna þegar slitastjórn Glitnis fór fram á og fékk alþjóðlega kyrrsetningu á eignum hans fyrir dómi í Lundúnum.
Hinn nýi auðlegðarskattur, sem lagður var á eignir 3.817 fjölskyldna, skilar um 3,8 milljörðum króna í ríkiskassann. Í raun er þetta 1,25% eignarskattur sem er lagður á eignir einhleypra, sem áttu meira en 90 milljónir króna í hreinar eignir, og hjóna/sambúðarfólks sem áttu meira en 120 milljónir, samkvæmt Viðskiptablaðinu.
Álfheiður auðugust íslenskra stjórnmálamanna
Guðbjörg Matthíasdóttir, athafnakona í Vestmannaeyjum, er auðugust Íslendinga samkvæmt úttekt blaðsins en hún greiðir einnig hæsta skattinn í ár. Miðað við auðlegðarskattinn á hún ríflega 3,2 milljarða króna.
Benedikt Sveinsson er í öðru sæti listans með 1,1 milljarð. Fast á hæla hans kemur svo Karl Wernersson með rétt rúman milljarð.
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra er auðugust allra stjórnmálamanna á Íslandi en hún greiðir auðlegðarskatt af 150 milljón króna hreinni eign.