Ummæli Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, um að kröfuhafar íslensku bankanna hafi verið meðvitaðir um áhættuna sem fylgdi því að gerast hlutafjáreigendur Íslandsbanka og Arion og þurfi því að taka á sig mögulegt tap vegna úrskurðar dómstóla vegna gengislána hafa hleypt illu blóði í samskipti erlendra kröfuhafa og stjórnvalda. Þýskur banki hefur að eigin sögn til að mynda sent kvörtunarbréf til fjármálaráðuneytisins.
Ummælin voru höfð eftir Steingrími í frétt Bloomberg-fréttaveitunnar um dóm héraðsdóms um gengislánin og fréttin birtist 8. júlí síðastliðinn. Í fréttinni kemur meðal annars fram sú skoðun Steingríms að kröfuhafarnir hafi veðjað á að hlutabréf í nýju bönkunum myndu reynast verðmætari en íslensk stjórnvöld hefðu verið reiðubúin að fallast á í samningaviðræðum um aðkomu þeirra að Íslandsbanka og Arion.
Þýski bankinn DekaBank, sem er í hópi kröfuhafa Glitnis, segist hafa sent bréf til fjármálaráðherra 13. júlí þar sem ummælum hans í frétt Bloomberg er mótmælt. DekaBank segir að bankanum hafi sem kröfhafa Glitnis aldrei staðið til boða að eignast hlutabréf í Íslandsbanka og fulltrúar hans hafi aldrei verið boðaðir á hluthafafundi í krafti slíkrar eignar. Ennfremur ítrekar bankinn að það hafi verið skilanefnd Glitnis sem hafi tekið ákvörðun um að eignast hlutabréf í Íslandsbanka. Skilanefndin sé skipuð af Fjármálaeftirlitinu þannig að ríkið hafi verið í raun að semja við sjálft sig þegar ákvörðun var tekin um að hún eignaðist hlutabréf í nýja bankanum. Lítið samráð hafi verið við DekaBank og fulltrúar bankans hafi gert fjármálaráðherra ljósa skoðun sína á málinu oftar en einu sinni. DekaBank bendir á að í minnisblaði frá kröfuhafafundi 22. september í fyrra komi fram að stjórnvöld hafi ekki leyft skilanefndinni að gera fulla áreiðanleikakönnun á Íslandsbanka og að kröfuhafar myndu ekki fá frekari aðgang að gögnum um nýja bankann.
Í ljósi þessa alls segir bankinn að ummælin sem höfð voru eftir Steingrími í umfjöllun Bloomberg séu ónákvæm og hugsanlega skaðleg fyrir bankann. Í bréfinu til ráðherrans er þess að krafist að hann taki þau til baka opinberlega og að bankinn íhugi lagalega stöðu sína vegna þeirra.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er afstaða DekaBank gagnvart eignarhaldi Glitnis á hlutabréfum Íslandsbanka ekki almenn meðal kröfuhafanna. Stærstu kröfuhafar Glitnis og Arion voru samkvæmt heimildum blaðsins samþykkir aðkomu þrotabúanna að nýju bönkunum. Hins vegar hefur óvissan um gengistryggðu lánin sett áformin í uppnám.