Útibú verktakafyrirtækisins ítalska, Impregilo, var nýlega úrskurðað gjaldþrota af héraðsdómi þrátt fyrir að hafa verið afskráð fyrir um ári.
Garðar Valdimarsson, lögmaður Impregilo á Íslandi, segir að búið sé að leggja fram beiðni við héraðsdóm um að úrskurðurinn verði dreginn til baka. „Í fyrsta lagi telur Impregilo að gallar hafi verið á auglýsingu stefnunnar, en fleira kemur til,“ segir Garðar. „Impregilo SpA Ísland er ekki sjálfstætt dótturfélag ítalska félagsins, heldur útibú þess. Það er ekki hægt að gera hluta fyrirtækis gjaldþrota, eins og úrskurður héraðsdóms virðist gera ráð fyrir.“
Garðar segir að við afskráningu útibúsins hafi allar skuldbindingar þess flust yfir á móðurfélagið á Ítalíu og því beri að gera hugsanlegar kröfur á það, en ekki afskráð útibúið.
Impregilo hefur í gegnum tíðina tekist á við skattayfirvöld um greiðslu opinberra gjalda og í febrúar síðastliðnum féll dómur í Hæstarétti þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfum Impregilo um endurgreiðslu á sköttum, sem greiddir höfðu verið af launum erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun. Voru mennirnir hér á landi á vegum tveggja portúgalskra starfsmannaleiga.
Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að það fé sem Impregilo SpA hefði skilað vegna staðgreiðslu af launum erlendu starfsmannanna væri ekki ofgreitt þar sem íslenska ríkið hefði átt réttmæta kröfu til fjárins. Réttur til endurgreiðslu væri á hendi gjaldandans, en ekki Impregilo, sem hafði milligöngu um að uppfylla skattskyldu annarra.
Impregilo