Lögmaður Pálma Haraldssonar segir að krafa slitastjórnar Glitnis banka um að Pálmi leggi fram fjölda gagna í tengslum við skaðabótamál, sem slitastjórnin hefur höfðað í New York, sýni að bankinn sé í einskonar veiðiferð og sé á höttunum eftir gögnum, sem hann geti hagnýtt sér.
Krefst lögmaðurinn þess, fyrir hönd Pálma, að kröfu bankans verði vísað frá, enda liggi ekki enn fyrir úrskurður um þá kröfu Pálma og annarra þeirra, sem skaðabótakrafan beinist gegn, að málinu verði vísað frá dómi í New York.
Lögmaður Pálma segir í greinargerð sinni að Glitnir hafi í engu svarað kröfu skjólstæðings síns um að málinu verði vísað frá. Bankinn hafi hins vegar haldið því fram að hann þurfi áðurnefnd gögn og upplýsingar frá Pálma áður en hann geti svarað þeirri kröfu. Vísar lögmaðurinn til bandarískra réttarfarsreglna sem segi að sóknaraðili í máli verði að hafa einhver gögn sem sýni að dómstóll eigi lögsögu í máli áður en hann geti krafist frekari gagna.
Með því að krefjast þessara gagna án þess að hafa svarað frávísunarkröfu Pálma sé Glitnir að reyna að fara í kringum þessa reglu.
Í greinargerð lögmanns Pálma segir að slitastjórnin hafi lagt fram kröfu um skjölin sex dögum eftir að krafa var lögð fram um að málinu yrði vísað frá dómi. Krafa bankans sé á 48 síðum og þess sé meðal annars krafist að Pálmi leggi fram gögn sem sýni hvaða daga hann hafi dvalið í New York, öll gild vegabréf sem hann kunni að hafa og einnig gögn sem tengist Iceland Express, félagi sem í engu tengist skaðabótakröfunni.
Lögmenn Hannesar Smárasonar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Lárusar Welding, Ingibjargar Pálmadóttur, Þorsteins Jónssonar og Jóns Sigurðssonar hafa einnig lagt fram sambærilegar kröfur.
Réttarfarið