160 milljónir króna fengust upp í veðkröfur í þrotabú Humac ehf., sem áður var söluaðili Apple á Norðurlöndum. Tilkynnt var um skiptalok í Lögbirtingablaðinu í dag, en veðkröfur námu alls 974 milljónum króna. Þessar 160 milljónir greiddi félagið Skakkiturninn fyrir reksturinn og Apple-umboðið.
Litlar aðrar eignir voru í þrotabúi Humac, en forgangskröfur námu 12,7 milljónum króna og almennar kröfur 88 milljónum króna. 1,8 milljónir fengust upp í forgangskröfur, eða 14%, og ekkert greiddist til almennra krafna. Humac, sem var söluaðili Apple á Norðurlöndum, fór í þrot í lok árs 2008, en stærsti eigandi Humac á þeim tíma var Stoðir Invest, sem voru í eigu nokkurra af stærstu hluthöfum Baugs Group.
Fyrir skömmu greindi Morgunblaðið frá því að Humac hefði ekki haldið til haga upphæð sem hið alþjóðlega Apple-fyrirtæki hafði greitt með hverri seldri tölvu hér á landi og nota átti til að greiða fyrir viðgerðir á tölvunum.