Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands jókst um 13,4 prósent í júní í krónum talið og telst nú 573,1 milljarður króna. Í dollurum talið jókst hann enn meira, eða um 14,6 prósent og telst 4.491 milljón dala.
Munar þar mest um umtalsverða aukningu krafna á erlenda banka, sem námu 313 milljörðum í lok júní, en 229 milljörðum í byrjun mánaðarins. Er þetta hækkun upp á 84,2 milljarða króna á milli mánaða eða 36,8 prósent.
Gullforði Seðlabankans er nú um 10,1 milljarðs króna virði og miðað við gengi og gullverð í lok júní á bankinn um 1,77 tonn af gulli.