Danska lögreglan hefur loks fundið fé, sem danski kaupsýslumaðurinn Stein Bagger og Michael Ljungman, sænskur vitorðsmaður hans, komu undan í einhverju mesta fjársvikamáli, sem um getur í danskri réttarsögu
Danska blaðið Børsen segir að þetta sé árangur samstarfs bandarísku alríkislögreglunnar FBI og dönsku efnahagsbrotalögreglunnar. Hafi meðal annars fundist leynilegur reikningur í Bandaríkjunum, sem skráður er á „Lord Mikael Ljungman.
Lögreglan telur, að 162 milljónir danskra króna, jafnvirði nærri 3,4 milljarða íslenskra króna, sem Bagger sveik út úr kaupleigufyrirtækjum gegnum fyrirtækið IT-Factory, hafi verið flutt til sænska fyrirtækisins Xiop AB, sem var í eigu Ljungmans.
Børsen segir, að helmingurinn af þessari fjárhæð hafi verið fluttur til bandaríska fyrirtækisinsEcommerce LLC, sem Mikael Ljungman á ásamt Carl Freer, sem einnig hefur verið dæmdur fyrir fjársvik.
Lögregla hefur farið fram á það við danska dómstóla, að þeir leggi hald á innistæður á öllum reikningum Ecommerce LLC í Bandaríkjunum og á reikningnum, sem skráður er á Lord Mikael Ljungman.
Bagger var á síðasta ári dæmdur í 7 ára fangelsi að hafa svikið 862 milljónir danskra króna, jafnvirði 18 milljarða íslenskra króna, út úr IT Factory. Ljungman var dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir aðild að fjársvikunum.