Indverski bílaframleiðandinn Mahindra & Mahindra er nú talinn líklegastur til að taka yfir rekstur Ssangyong Motors í Suður-Kóreu, sem er gjaldþrota. Ssangyong tilkynnti í dag að skrifað yrði undir samkomulag við Indverjana í lok þessa mánaðar.
Mahindra var þannig tekið framyfir dekkjaframleiðandann Ruia Group og Young An Hat, Suður-Kóreskt fyrirtæki sem m.a. á rútuverksmiðjur Daewoo Bus Company.
Mahindra stefnir á að verða hnattrænt fyrirtæki og hefur haft auga á Ssangyong um hríð, til þess að fá aðgang að meiri tækni fyrir jeppa sem það framleiðir og til þess að auka áhrif sín á mörkuðum utan Indlands.
Ef þessi yfirtaka verður að raunveruleika verður Mahindra annar indverski bílaframleiðandinn sem fer inn á Suður-Kóreumarkað á eftir Tata Motors, sem árið 2004 keyptu Daewoo Commercial Vehicles.