Kreppan birtist í skattframtölum

Greiddur voru út tæpir 92 milljarðar króna út úr lífeyrissjóðunum …
Greiddur voru út tæpir 92 milljarðar króna út úr lífeyrissjóðunum í fyrra mbl.is/Golli

Á síðasta ári drógust laun og hlunnindi saman, atvinnuleysisbætur hækkuðu, fleiri tóku út séreignarlífeyrissparnað, fjármagnstekjur lækkuðu og skuldir hækkuðu umfram eignir. Þetta er meðal þess sem má lesa útúr niðurstöðum álagningar opinberra gjalda á tekjur einstaklinga 2010 sem ríkisskattsstjóri birti fyrir skömmu. Niðurstöðurnar bera gjaldeyris- og bankakreppunni sem hófst árið 2008 glöggt merki, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Framteljendum á skattgrunnskrá fækkaði nú í fyrsta skipti. Voru þeir nú ríflega 261 þúsund samanborið við ríflega 267 þúsund við álagninguna í fyrra. Fækkunin á milli ára er 2,3%. Fækkunin skýrist af því að ríflega 8 þúsund útlendingar fluttu frá landinu á árinu 2009 en útlendingar voru um 12% einstaklinga á skattgrunnskrá á árinu 2009. Íslendingum á skránni fjölgaði hins vegar frá fyrra ári.

Fjármagnstekjur minnka milli ára

Landsmenn töldu nú fram tæplega 956 milljarða kr. í skattskyldar tekjur samanborið við 1.003 milljarða kr. í fyrra. Lækkunin sem er 4,3% er til komin vegna þess að fjármagnstekjur drógust mikið saman á milli ára en tekjuskatts- og útsvarsstofn hækkar lítillega á milli ára. Voru fjármagnstekjur tæpir 139 ma.kr. nú samanborið við ríflega 194 ma.kr. í fyrra. Hafa fjármagnstekjur frá því að kreppan hófst árið 2008 farið úr því að vera tæplega fjórðungur skattskyldra tekna niður í tæplega 15%.

Hækkun skýrist einkum af auknum greiðslum frá lífeyrissjóðum

„Hækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni skýrist fyrst og fremst af því að greiðslur úr lífeyrissjóðum jukust verulega á milli ára. Voru greiddir tæpir 92 ma.kr. úr lífeyrissjóðunum á síðasta ári samanborið við tæplega 54 ma.kr. árinu áður. Þá var einnig aukning í greiðslum frá Tryggingastofnun sem má rekja til vaxandi atvinnuleysisbóta en stofnunin greiddi tæplega 28 þús. manns tæplega 21 ma.kr. í atvinnuleysisbætur samanborið við tæplega 4 ma.kr. í samkvæmt álagningunni í fyrra. Laun og hlunnindi lækkuðu hins vegar allverulega nú eða um 5,8% sem samsvarar 40 mö.kr. enda hefur fjöldi starfandi minnkað, vinnutími styst og víða laun verið lækkuð.

Það telst til tíðinda að skuldir landsmanna jukust nú, annað árið í röð, ekki aðeins hraðar heldur einnig meira en eignir. Á meðan matsverð eigna hækkar um 4% hækka skuldir um 12,4%. Eignir landsmanna hækkuðu nú að verðmæti um rúma 147,4 ma.kr.. á sama tíma og skuldir jukust um 209,3 ma.kr. Skuldir jukust þannig um 61,9 ma.kr umfram eignir. Allt frá árinu 1991 hafa skuldir aldrei aukist meira en
matsverð eigna," segir í Morgunkorni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK