Fréttaskýring: Rekstrarkostnaður ÁTVR sami og 2007

Heiðar Kristjánsson

Rekstrarkostnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, ÁTVR, hefur svo til staðið í stað frá árinu 2007. Kostnaðurinn nam 2.552 milljónum króna á síðasta ári, en 2.545 milljónum króna árið áður og 2.518 milljónum árið 2007, þegar tekið hefur verið tillit til neysluverðsvísitölu.

Hinn aukni hagnaður ÁTVR, sem fjölmiðlar hafa sagt frá að undanförnu, er því að mestu leyti til kominn vegna verðhækkunar í vínbúðum fyrirtækisins. Hagnaðurinn nam 1.375 milljónum króna, en rekstrartekjur námu rúmum 25,2 milljörðum króna á árinu. Tekjur af sölu áfengis voru 17 milljarðar og jukust um tæp 19% á milli ára, en tekjur af sölu tóbaks jukust um 19,5% milli ára og voru 8,2 milljarðar króna. Þessar auknu tekjur voru af sölu á 20 milljónum lítra áfengis, sem var 2% minnkun frá fyrra ári. Mikill samdráttur var í sölu einstakra vöruflokka, t.a.m. 37% í blönduðum drykkjum og 12% í ókrydduðu brennivíni og vodka.

Húsnæðiskostnaður hækkaði

Húsnæðiskostnaður ÁTVR hækkaði um 32 milljónir króna á árinu og nam 500 milljónum króna. Sem fyrr segir var vínbúðinni í Spöng lokað í byrjun árs, en ný vínbúð var opnuð á Flúðum á árinu og vínbúðin í Reykjanesbæ flutt í nýtt og stærra húsnæði. Vínbúðin á Siglufirði var öll tekin í gegn og stækkuð. Tekin var upp sjálfsafgreiðsla þar og í vínbúðinni á Fáskrúðsfirði, en þar var vínbúðin flutt í nýtt og stærra húsnæði. Þá var vínbúðin á Höfn í Hornafirði endurnýjuð og flutt í stærra húsnæði í miðbænum. Vínbúðin Heiðrún var stækkuð og aðstaða fyrir bjór rýmkuð.

Markaðs- og dreifingarkostnaður stóð því sem næst í stað og var 205 milljónir króna. Stjórnunar- og skrifstofukostnaður lækkaði hins vegar um 24 milljónir og var 174 milljónir króna. Annar rekstrarkostnaður var sá hinn sami og árið áður, 77 milljónir króna. Afskriftir jukust um 20 milljónir, námu 131 milljón króna á árinu.

Arðgreiðsla ÁTVR í ríkissjóð nam 960 milljónum króna, en fjárlög höfðu gert ráð fyrir 210 milljónum króna. Alls tók ríkissjóður til sín 19 milljarða króna af heildarsölu fyrirtækisins, sé tekið tillit til magngjalds tóbaks, arðs, áfengisgjalds og virðisaukaskatts.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK