Útflutningsbann á korni hefur tekið gildi í Rússlandi og gildir út árið. Er þetta gert vegna þurrkana þar í landi og skógar- og kjarrelda sem hafa spillt uppskeru og ræktarlandi.
Rússland er einn helsti framleiðandi á hveiti, rúgi og byggi í heiminum og er talið að þetta muni hafa víðtæk áhrif um allan heim. Til að mynda eigi verð á brauði eftir að hækka mikið í Mið-austurlöndum en brauð er ein helsta fæðan þar, samkvæmt frétt BBC.
Var útflutningsbannið sett til þess að reyna að koma í veg fyrir miklar verðhækkanir innanlands vegna minna framboðs af korni. Hins vegar óttast landbúnaðarráðuneytið að þetta dugi ekki til þar sem ólíklegt sé að framleiðslan í ár anni innanlandsmarkaði.
Hundruð elda loga víðsvegar um Rússland en á mun minna svæði heldur en fyrir viku síðan. Kornuppskeran verður hins vegar einungis brot af því sem hún var á síðasta ári.
Fyrir viku var greint frá því að fjárfestar hafi keppst við að selja eignarhluti sína í fyrirtækjum á borð við Heineken, Carlsberg og Nestlé, en þau eiga það sameiginlegt að nota korn í afurðir sínar. Heimsmarkaðsverð á hveiti hefur nærri tvöfaldast undanfarna tvo mánuði.