Kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy Sweden tilkynnti í dag, að það væri búið að greiða fyrir 38,03% af af þeim hlutabréfum í HS Orku, sem Magma keypti af Geysi Green Energy í maí.
Magma Sweden á nú 84,21% hlut í HS Orku en alls hefur félagið gert samninga um kaup á 98,53% af hlutafénu.
Fram kemur í tilkynningu á vefnum Stockwatch, að Magma hafi greitt tæplega 3,9 milljarða króna fyrir hlutabréfin í dag. Þá er gert ráð fyrir að félagið greiði rúma 3 milljarða króna fyrir afganginn af hlutafénu þann 30. nóvember.
Ríkisstjórnin skipaði í byrjun ágúst nefnd sem á að rannsaka kaup Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku í gegnum dótturfélag í Svíþjóð í ljósi vafa um lögmæti þeirra viðskipta. Nefndin átti að skila niðurstöðu um þetta 15. ágúst en hefur fengið lengri frest.