Páll Magnússon, útvarpsstjóri, segir í viðtali við Viðskiptablaðið sem kemur út á morgun að Landsbankinn hafi staðið við bakið á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni er hann keypti alla fjölmiðlana út úr félaginu Íslenskri afþreyingu fyrir lítið en stærsti hluti skuldanna hafi verið skilinn eftir.
„Í nóvember 2008 – strax eftir hrun – var allur fjölmiðlarekstur þess fyrirtækis sem nú heitir 365 settur inn í félag sem hét Íslensk afþreying. Þessu fylgdu milljarðaskuldir eftir linnulaust tap og gargandi vitlausar fjárfestingar áranna á undan, svo sem í blaðaútgáfu í Danmörku og Bandaríkjunum, kaupum á prentsmiðju í Bretlandi og rekstri NFS hér á Íslandi.“
Páll segir Íslenska afþreyingu hafa verið andvana fætt félag og stefnt rakleiðis í gjaldþrot, enda hafi leikurinn verið til þess gerður.
„Áður en til þess kom fékk Jón Ásgeir Jóhannesson hins vegar að kaupa alla fjölmiðlana út úr félaginu fyrir lítið en skilja stærstan hlutann af skuldunum eftir. Allar þessar tilfæringar voru gerðar með tilstyrk Landsbankans, sem þá var orðinn ríkisbanki, og höfðu tvíþættan tilgang: annars vegar að tryggja eignarhald og yfirráð Jóns Ásgeirs yfir fjölmiðlunum en hins vegar koma skuldunum yfir á einhverja aðra, þar með talda skattgreiðendur sem voru orðnir eigendur bankans,“ segir Páll.