Samkvæmt frétt Stöðvar 2 í kvöld styttist í að slitastjórn Landsbankans höfði tvö skaðabótamál fyrir dómstólum á hendur fyrrum stjórnendum Landsbankans. Áður hafði slitastjórnin látið tryggingarmiðlun í London kanna möguleika á alls 11 slíkum málum. Kröfuhafafundur Landsbankans fer fram á morgun.
Nema kröfurnar tugum milljarða króna en ítrasta krafan í stærra málinu nemur um 20 milljörðum króna, samkvæmt fréttinni. Slitastjórn Landsbankans tilkynnti að lokinni rannsókn Deloitte um 11 tilvik til breskrar tryggingarmiðlunar þar sem fyrrum stjórnendur bankans eru taldir hafa bakað honum tjón með athafnaleysi sínu eða athöfnum. Nemur bótafjárhæð þessara mála, samkvæmt ítrustu kröfum, um 250 milljörðum króna.