Uppgjöri á kaupaukasamningum hjá Landsbankanum í september og október 2008 hefur verið rift. Þar er um að tefla riftunarmál upp á 400 milljónir króna sem beinast gegn þremur fyrrverandi yfirmönnum bankans.
Þetta kom fram á blaðamannafundi slitastjórnar Landsbankans í dag. Þar kom einnig fram, að ekki var gengið að tryggingum vegna lánaskuldbindinga ákveðinna viðskiptavina Landsbankans á meðan þær voru gjaldkræfar síðustu vikurnar fyrir fall bankans.
Talið er að tap bankans vegna þess nemi tugum milljarða króna. Mál sem þessi eru einkum til skoðunar í hugsanlegum skaðabótamálum bankans, en undirbúningur þeirra er á lokastigi, að því er fram kom í kynningu slitastjórnarinnar. Slitastjórnin hefur einnig ákveðið að rifta afborgunum af skuldabréfum bankans síðustu mánuðina fyrir fall Landsbankans.