Ákveðið var á skiptafundi eignarhaldsfélagsins BGE, sem fram fór í morgun, að innheimta skuldir starfsmanna Baugs við félagið. Skuldirnar eru til komnar vegna lána til hlutabréfakaupa í Baugi.
Fyrrverandi stjórnendur Baugs, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Stefán H. Hilmarsson, segja báðir að í samkomulagi við Kaupþing, sem fjármagnaði hlutabréfakaupin, hafi falist að ekki yrði gengið að lánþegunum persónulega, heldur lægju bréfin sjálf til grundvallar sem veð. Bréfin eru nú verðlaus, enda Baugur gjaldþrota. Alls þáðu 40 starfsmenn fyrirtækisins lán til hlutabréfakaupa, um helmingur þeirra erlendir starfsmenn.
Frá því hefur verið greint í fjölmiðlum að heildarupphæð skuldbindinganna nemi hundruðum milljóna króna og að um helmingur upphæðarinnar sé vegna lána til Jóns Ásgeirs, Stefáns og Gunnars Sigurðssonar, forstjóra.
Bjarni S. Ásgeirsson, skiptastjóri BGE, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa heimild til þess að staðfesta fjárupphæðir eða nöfn hlutaðeigandi. Hann reiknar með því að málin fari fyrir dómstóla, en það verði í fyrsta lagi á þessu ári. Einstök mál verði tekin úr og látið á þau reyna.