Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skilaði 5,1 milljarðs króna hagnaði á fyrri hluta ársins en á sama tímabili í fyrra var 10,6 milljarða króna tap. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs var 2,1 milljarðs króna tap á rekstrinum.
Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni, að gengi íslensku krónunnar hafi styrkst um 8,3% á fyrri helmingi ársins og um önnur 2,5% síðan. Greiddir vextir fyrri hluta árs námu 1,1 milljarði króna. Samsvarandi fjárhæð 2009 var 3,3 milljarðar króna. Vaxtakostnaður lækkar
því á milli tímabila um tvo þriðju, eða 2,2 milljarða. Segir fyrirtækið að ástæðan sé, sú að á árinu 2009 þurfti OR að leita á íslenskan lánamarkað, þar sem vextir eru meira en tífaldir meðalvextir erlendra lána OR, sem eru 0,99%.
Rekstrartekjur á fyrri hluta ársins námu 13.561 milljón króna en voru 11.925 milljónir króna sama tímabil árið áður.
Fram kemur í tilkynningunni, að áfram sé unnið að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Áformað sé að taka 4. áfanga hennar, framleiðslu á heitu vatni, í notkun undir lok yfirstandandi árs og 5. áfanga virkjunarinnar, framleiðslu á 90 MW rafafls, síðla árs 2011.
Samið hefur verið við Evrópska fjárfestingabankann um fjármögnun helmings 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar. Viðræður um frekari fjármögnun fyrirtækisins stand yfir.