Hálfur milljarður tapaðist á viðskiptum með skíðaskála

Courchevel.
Courchevel.

Tap upp á 514 milljónir króna er bókfært vegna sölu BG Danmark á skíðaskála í Courchevel í Frakklandi á síðasti ári. Þetta kemur fram í ársreikningi BG Danmark sem skilað var inn til ársreikningaskrár Danmerkur hinn 16. ágúst síðastliðinn.

Í reikningnum segir að kostnaður við fasteignaþróunarverkefnið 101 Chalet hafi numið 161,5 milljónum danskra króna, eða 3,3 milljörðum íslenskra króna sé miðað við gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Eftir að verkefninu var lokið var skálinn seldur á 136,5 milljónir danskra króna.

Einnig kemur fram að fasteign við Galionsvej í Kaupmannahöfn hafi verið seld á 11,3 milljónir danskra króna, en söluhagnaður upp á 1,1 milljón danskra króna varð á þeim viðskiptum. Galionsvej stendur við Christianshavn í Kaupmannahöfn, eitt af dýrari svæðum í borginni.

Auglýst til sölu í fyrra

Greint var frá því í Morgunblaðinu í september 2009 að skíðasetrið 101 Chalet hefði verið sett á sölu. Þetta staðfesti Jón Ásgeir Jóhannesson í samtali við blaðið. Í ársreikningum segir að skíðasetrið hafi hins vegar verið selt strax í upphafi árs 2009 til „þriðja aðila“.

Málefni 101 Chalet eru veigamikil í málsókn slitastjórnar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleirum. Fram hefur komið að Jón Ásgeir greiddi á dögunum 15 milljónir dollara, eða 1,8 milljarða íslenskra króna til slitastjórnarinnar. Heimildir Morgunblaðsins herma að sú greiðsla tengist uppgjöri vegna mála tengdra 101 Chalet.

Fram kom í Morgunblaðinu í apríl síðastliðnum að skilanefnd Glitnis hygðist krefja þrotabú Baugs um tvo milljarða króna vegna sölu á skíðaskálanum, en Baugur Group gekkst í ábyrgð fyrir skuldum 101 Chalet. BG Danmark var hins vegar selt til fjárfestingafélagsins Gaums í október 2008, sem kann að skýra hvers vegna Jón Ásgeir greiddi skilanefndinni 1,8 milljarða fyrir skömmu.

Þrotabú Baugs hyggst raunar krefjast riftunar á sölu BG Danmark frá Baugi til Gaums, en fram hefur komið að þrotabúið telji að um gjafagerning hafi verið að ræða í skilningi gjaldþrotalaga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK