Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, segir að ríkisstjórnir og seðlabankar verði að tryggja, að það takist að draga úr gríðarlegum opinberum skuldum án þess að það komi niður á hagvexti.
Trichet hélt ræðu á ráðstefnu bandaríska seðlabankans í Wyoming í gærkvöldi og sagði, að ríkisstjórnir og seðlabankar, sem gripu til aðgerða í fjármálakreppunni til að koma í veg fyrir fall alþjóðlega bankakerfisins, verði nú að finna leiðir til að draga úr skuldum sem þá var safnað án þess að skerða hagvöxt.
„Helsta verkefni peningamálastjórnunar á næstu 10 árum er að tryggja að þau verði ekki nýr „týndur áratugur," sagði Trichet.
Hann sagði að í aðdraganda fjármálakreppunnar á árunum 2007 til 2009 hafi bæði fyrirtæki og einstaklingar safnað skuldum, sem reyndust ekki vera sjálfbærar. Þegar blaðran sprakk hafi þessi skuldabyrði færst til hins opinbera og seðlabanka. Nú eru stýrivextir í Evrópu 1%.