Bráðabirgðaútreikningar Greiningar Íslandsbanka bendir til þess að vísitala neysluverðs munu hækka um tæpt 1% í október en það er einkum rakið til hækkunar verðskrár Orkuveitu Reykjavíkur. Hækkunin mun hægja á hjöðnun verðbólgunnar næstu mánuði en ekki koma í veg fyrir hana.
Hækkunin hefur glatt eigendur skuldabréfa og hefur kaupáhugi ráðið ríkjum í morgun.
Gjald fyrir dreifingu rafmagns hækkar um 40%,
rafmagnsverðið um 11% og verð á heitu vatni um 35%. Hækkunin tekur
gildi 1. október og kemur því fram í vísitölu neysluverðs fyrir október.
Fyrir þau heimili sem kaupa veituþjónustu OR nemur hækkunin 0,7% af
heimilisútgjöldum, en bein áhrif hækkunarinnar á VNV eru 0,39%.
Auk
beinu áhrifanna má gera ráð fyrir talsverðum óbeinum áhrifum sem koma
munu fram í VNV á næstunni. Aðrir orkusalar en OR eru margir hverjir
líklegir til að grípa gæsina og hækka orkuverð til notenda utan
sölusvæðis OR. Þó verða þær hækkanir trúlega hóflegri, enda staða OR
óvenju slæm meðal orkufyrirtækja, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
„Ekki má heldur gleyma því að raforka er allstór kostnaðarliður hjá mörgum þeim fyrirtækjum sem framleiða innlendar neysluvörur og selja almenningi þjónustu. Verulegur hluti þeirra á vart aðra kosti en að ýta a.m.k. hluta þessarar kostnaðarhækkunar út í verðlagið, þótt erfitt sé að slá mati á hversu mikil þau áhrif muni verða á heildina litið."