Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir líklegt að formleg staða Stefáns Hilmars Hilmarssonar, fjármálastjóra fyrirtækisins, muni breytast eftir að Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að bú Stefáns verði tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Arion banka.
Að sögn Ara verða mál Stefáns skoðuð á næstu dögum innan fyrirtækisins.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur verður á morgun fyrirtækja í tveimur skuldamálum á hendur Stefáni Hilmari. Annað er höfðað að Arion banka og hitt af Landsbankanum. Áður en Stefán kom til starfa hjá 365 var hann fjármálastjóri Baugs Group sem er gjaldþrota.
Stefán kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar og bar því meðal annars við, að kyrrsetningargerð frá því í maí gæfi ranga mynd af fjárhag hans.
Hæstiréttur vísar til þess, að við fyrirtöku á beiðni Arion banka um kyrrsetningu lýsti Stefán því yfir að hann væri eignalaus. Þá var talið að ekki yrði byggt á mati Stefáns sjálfs um verðmæti eigna sem hann taldi sig eiga, en bankinn hafi sýnt fram á að þær væru háðar veðböndum sem geti svarað til alls verðmætis þeirra. Raunvirði hlutabréfa hafi ekki verið metið og bíll, sem Stefán teldi til eigna sinna, væri skráður eign annars.
Hæstiréttur hafnaði því þeirri vörn Stefáns, að ástæða væri til að ætla að kyrrsetningargerðin gæfi ranga mynd af fjárhag hans. Þá var ekki talið að höfða hefði þurft mál til staðfestingar kyrrsetningargerðinni þar sem henni hafi lokið án árangurs.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að helsta ástæða kyrrsetningarkröfunnar hafi verið sú, að Stefán hafi í september
2008 framselt fasteign sína til einkahlutafélags þar sem nánustu skyldmenni hans skipuðu stjórn.
Taldi bankinn framsal eignarinnar til tengds aðila hafa verið gert í þeim
tilgangi að rýra líkur kröfuhafa og þar með bankans á fullnustu skulda
Stefáns.