Auðlindir lánardrottna

Brynjar Gauti

Núverandi eignar- og ábyrgðafyrirkomulag Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar gera það að verkum að fyrirtækin, og þar með þær náttúruauðlindir sem þau hafa yfir að ráða, geta ekki komist í eigu erlendra aðila.

Skuldastaða þessara fyrirtækja gerir það hins vegar að verkum að stór hluti tekna þeirra fer í greiðslu vaxta og lánaafborgana, að mestu leyti til erlendra lánardrottna. Rekstur þeirra er í járnum, ekki síst Orkuveitunnar. Gjaldskrárbreytingar og niðurskurðaráform skila því til viðskiptavina hennar, sem jafnframt eru eigendur, að þjónustan stendur í besta falli í stað, á meðan verðið hækkar umtalsvert.

Heildarskuldir Orkuveitunnar, samkvæmt árshlutauppgjöri frá því í júní, eru 233 milljarðar króna. Af þeirri upphæð eru tæpir 55 milljarðar á gjalddaga til og með júnílokum árið 2013. Sú tala er meira en tvöfaldar rekstrartekjur fyrirtækisins á öllu síðasta ári. Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum sögðu lánardrottnar Orkuveitunni að hækka gjaldskrána, annars yrði ekki samið um endurfjármögnun. Burtséð frá því að slík hækkun var að líkindum óhjákvæmileg sýnir beiðnin ein hver það er sem hefur völdin í „sambandinu“. Segja má að Orkuveitan sé upp á náð og miskunn lánardrottna sinna komin.

Til samanburðar þarf Landsvirkjun að standa skil á lánaafborgunum að andvirði um 430 milljóna dala til ársloka 2011. Rekstrartekjur fyrirtækisins allt árið 2009 voru 299 milljónir dala. Það er því ljóst að stór hluti tekna Landsvirkjunar mun einnig fara í greiðslu vaxta og lána á næstu árum. Á meðan svo er bíða þróun og uppbygging óhjákvæmilega, því lánardrottnar gera það ekki.

Nánar er fjallað um þetta í ítarlegri úttekt í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK