Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 3,1% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2010 til 2. ársfjórðungs 2010 og um 8,4% ef miðað er við 2. ársfjórðung árið 2009. Landsframleiðsla fyrstu sex mánuði ársins 2010 er talin hafa dregist saman um 7,3% að raungildi samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2009.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Þjóðarútgjöld drógust saman um 7,4% milli 1. og 2. ársfjórðungs þessa árs. Einkaneysla dróst saman um 3,2% og fjárfesting dróst saman um 4,7%. Samneysla jókst um 1%.
Samanburður við nokkur helstu viðskiptalönd Íslands sýnir að í þeim öllum varð hagvöxtur milli 1. og 2. ársfjórðungs þessa árs. Þannig varð til dæmis 0,4% vöxtur í Bandaríkjunum, 1,2% í Bretlandi og 1% í 15 ríkjum Evrópusambandsins. Mestur var vöxturinn í Þýskalandi 2,2%.
Nú segir Hagstofan að landsframleiðsla hafi dregist saman að raungildi um 6,8% á síðasta ári samkvæmt endurskoðuðum tölum yfir þjóðhagsreikninga. Er það meiri samdráttur en áður var talið en í áætlun frá því í mars var samdrátturinn á árinu 2009 talinn hafa numið 6,5%.
Þessi samdráttur varð eftir samfelldan hagvöxt frá og með árinu 1993 og er samdrátturinn sá mesti sem mælst hefur frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst á Íslandi árið 1945. Hagvöxtur á árinu 2008 er talinn hafa numið 1%.