Tölvupóstsamskipti starfsmanna FL Group færa sönnur á að viðskipti með Sterling-flugfélagið og stofnun Northern Travel Holding (NTH) voru fyrst og fremst gerð til að falsa eiginfjárstöðu og fegra efnahagsreikninga þeirra félaga sem að viðskiptunum komu. Frá þessu var greint í Viðskiptablaðinu í gær, sem greindi í ítarlegu máli frá sölu danska lágfargjaldaflugfélagsins Sterling og Iceland Express inn í NTH.
Flugfélagið Sterling var upphaflega selt út úr dönsku fyrirtækjasamstæðunni Tjæreborg árið 1986. Sterling varð síðan gjaldþrota árið 1993, en þá keyptu stjórnendur félagið. Síðan dró ekki til tíðinda fyrr en í mars 2005, þegar fjárfestingafélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, Fons, keypti félagið á 375 milljónir danskra króna. Á þávirði nam kaupverðið fjórum milljörðum íslenskra króna.
Aðeins sjö mánuðum síðar keypti FL Group Sterling á 15 milljarða króna. Verðhækkunin nam því heilum ellefu milljörðum á afar skömmu tímabili. Þrátt fyrir þessa miklu verðhækkun á skömmum tíma var greiningardeild Íslandsbanka hæstánægð með viðskiptin.