Fréttaskýring: Svikamyllan afhjúpast enn frekar

Hannes Smárason hélt blaðamannafund til að kynna kaup FL Group …
Hannes Smárason hélt blaðamannafund til að kynna kaup FL Group á Sterling.

Tölvupóstsamskipti starfsmanna FL Group færa sönnur á að viðskipti með Sterling-flugfélagið og stofnun Northern Travel Holding (NTH) voru fyrst og fremst gerð til að falsa eiginfjárstöðu og fegra efnahagsreikninga þeirra félaga sem að viðskiptunum komu. Frá þessu var greint í Viðskiptablaðinu í gær, sem greindi í ítarlegu máli frá sölu danska lágfargjaldaflugfélagsins Sterling og Iceland Express inn í NTH.

Flugfélagið Sterling var upphaflega selt út úr dönsku fyrirtækjasamstæðunni Tjæreborg árið 1986. Sterling varð síðan gjaldþrota árið 1993, en þá keyptu stjórnendur félagið. Síðan dró ekki til tíðinda fyrr en í mars 2005, þegar fjárfestingafélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, Fons, keypti félagið á 375 milljónir danskra króna. Á þávirði nam kaupverðið fjórum milljörðum íslenskra króna.

„Erfið ákvörðun hjá mér og Jóhannesi“

Aðeins sjö mánuðum síðar keypti FL Group Sterling á 15 milljarða króna. Verðhækkunin nam því heilum ellefu milljörðum á afar skömmu tímabili. Þrátt fyrir þessa miklu verðhækkun á skömmum tíma var greiningardeild Íslandsbanka hæstánægð með viðskiptin.

Í umfjöllun greiningardeildarinnar kom fram að rættust áætlanir félagsins um hagnað fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta mættu kaupin teljast hagfelld, en kaupverð félagsins var sagt tengjast afkomu. Þegar Fons seldi Sterling til FL Group var eftirfarandi haft eftir Pálma Haraldssyni í Morgunblaðinu 24. október 2005: „Þetta var mjög erfið ákvörðun hjá mér og Jóhannesi. Við lágum yfir þessu í langan tíma. [...] Menn skulu átta sig á því að það er engin smáræðis hagræðing sem hefur átt sér stað hjá félaginu nú þegar.“ Einnig var haft eftir Hannesi Smárasyni, þá forstjóra FL Group, að forsvarsmenn félagsins „væru mjög ánægðir með þennan samning“.

Rannsakað sem alvarlegt auðgunarbrot

Í yfirlýsingu sem Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL Group, sendi frá sér í apríl síðastliðnum, mátti lesa milli línanna að þrír milljarðar króna sem hurfu af reikningum FL Group skömmu fyrir kaup Fons hafi verið nýttir til að fjármagna kaup Fons. Peningarnir skiluðu sér þó aftur til FL Group um það fjórum mánuðum síðar, eða um svipað leyti og Sterling sameinaðist danska flugfélaginu Maersk. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, sagði í samtali við Morgunblaðið 21. apríl síðastliðinn að millifærslan sem um ræðir væri rannsökuð sem alvarlegt efnahagsbrot.

Ofmat vísvitandi lagt til grundvallar

Það var síðan í lok desember 2006 að félagið NTH var stofnað til að kaupa Sterling og Iceland Express af FL Group. Þá þótti forsvarsmönnum FL Group tímabært að koma Sterling og Iceland Express af efnahagsreikningi félagsins. Í pósti sem Jón Sigurðsson, þáverandi framkvæmdastjóri FL Group, sendi til samstarfsmanns var varpað fram eftirfarandi spurningu: „Er ofmat IE jafnmikið og á ST, hlutfallslega? Það er lykilatriði,“ en þarna vísar Jón til félaganna Iceland Express og Sterling. Ofmat á eignum var því lykilatriðið í viðskiptunum. Tilgangurinn, var eins og áður sagði, að lappa upp á efnahagsreikning FL Group. Eins og áður sagði var sala Fons á Sterling til FL Group afkomutengd. Þau markmið sem miðað var við höfðu ekki náðst, þannig að FL hefði getað krafið Pálma um tæpa sex milljarða króna. Það var ekki gert, heldur var lausnin sú að stofna NTH sem keypti Sterling á enn uppsprengdara verði, 20 milljarða króna. NTH varð gjaldþrota fyrir ári, eignalaust með öllu.

Miklir möguleikar

„Northern Travel Holding hefur mjög mikla möguleika. Við erum sannfærð um að þessi einstaka samsetning ólíkra fyrirtækja á eftir að hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlöndunum,“ sagði Pálmi Haraldsson í tilefni af sölu Sterling til Northern Travel Holding, og bætti við: „Markmiðið er að Northern Travel Holding verði arðbært, framsækið og leiðandi fyrirtæki.“ Rúmlega ári áður hafði Pálmi lýst yfir talsverðri eftirsjá á sölunni á Sterling: „Þetta var mjög erfið ákvörðun.“

Þarf að meika sens

Jón Sigurðsson, sem á árinu 2006 var einn framkvæmdastjóra FL Group, virðist vera sá maður sem var falið að hanna Project Scantravel, sem var sú aðgerð að fjarlægja Sterling af efnahagsreikningi FL Group. Í pósti til Hannesar Smárasonar, þáverandi forstjóra, og Einars Þorsteinssonar, annars framkvæmdastjóra FL Group, sagði hann að mikilvægt væri að viðskiptin „meikuðu sens út á við.“ Raunin var sú að viðskiptin snerust að miklu leyti um að ofmeta verð Sterling og Iceland Express við stofnun NTH.

Mikilvægt skref

Haft var eftir Hannesi Smárasyni í tilkynningu til Kauphallar Íslands að salan á Sterling og stofnun NTH væri mikilvægt skref fyrir FL Group. Að sama skapi sagði hann að „rekstur Sterling hefði aldrei gengið betur og því mikil tækifæri sem lægju í félaginu fyrir nýja eigendur“. Rúmlega einu og hálfu ári síðar varð Sterling gjaldþrota. Fram kom í Viðskiptablaðinu í gær að Hannes Smárason hefði neitað að láta gera áreiðanleikakönnun vegna sölunnar á Sterling til NTH.

Hætti um leið

Ragnhildur Geirsdóttir tók formlega við sem forstjóri FL Group hinn 1. júní 2005, en hætti tæplega fjórum mánuðum síðar. Það var síðan í apríl 2010 að Ragnheiður útskýrði ástæðu uppsagnar sinnar, en það voru fyrirhuguð kaup á Sterling og „óskiljanleg verðhækkun á þeim fáu mánuðum sem félagið var í eigu Fons.“ Þegar Ragnhildur hætti var útskýringin þó ívið óljósari: „Í ljósi áherslubreytinga hjá félaginu er það samkomulag milli mín og stjórnar félagsins að leiðir skilja á þessum tímapunkti.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK