Fjárfesting dróst saman um rúmlega 26% á öðrum fjórðungi milli ára miðað við óárstíðarleiðréttar tölur. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um verga landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi sem birtar voru í gær. Sé litið til fyrri árshelmings milli ára nemur samdrátturinn tæpum fimmtán prósentustigum.
Einkaneysla dregst einnig hratt saman, þó ekki með sama hraða og fjárfestingin. Frá fyrsta ársfjórðungi til annars á þessu ári nam samdrátturinn 3,2%, en milli ára er samdrátturinn 2,1%.
Hagstofan birti að sama skapi endurskoðaðar hagvaxtartölur fyrir síðasta ár. Samdráttur vergrar landsframleiðslu nam þá 6,8%, en fyrri tölur gerðu ráð fyrir 6,5% samdrætti. Fram kemur í tölum Hagstofunnar að samdráttur vergrar landsframleiðslu á fyrri helmingi árs milli áranna 2009 og 2010 nemur 7,3% að raunvirði. Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur veg og vanda af hagstjórn á Íslandi í dag, gerði ráð fyrir 3% samdrætti landsframleiðslu á árinu 2010. Ef heldur fram sem horfir má gera ráð fyrir að endanlegur hagvöxtur í ár verði mun minni en spár sjóðsins gera ráð fyrir.
Samkvæmt algengri skilgreiningu er kreppu opinberlega talið lokið þegar vöxtur hefur verið tvo ársfjórðunga í röð. Ljóst er að miðað við þróun helstu hagvísa er nokkuð í land með kreppulok. Þegar fyrstu tölur um hagvöxt á fyrsta fjórðungi bárust benti greiningardeild Íslandsbanka á að kreppan hefði náð lágmarki sínu. Einnig sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að kreppunni væri lokið. Endurskoðaðar tölur leiða annað í ljós.
Á þetta benti Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, á vefsíðu samtakanna í gær. „Þetta er þvert á þau skilaboð sem stjórnmálamenn eru að senda okkur um að botninum sé náð og að betri tíð sé framundan. Vissulega væri óskandi að svo væri en hagtölur benda því miður til annars,“ var haft eftir Bjarna. Þess ber að geta að Hagstofan slær varnagla við því að afleiðingar bankahrunsins á haustmánuðum valdi áfram óvissu um hagtölur, sem sæta sífelldri endurskoðun.