Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir og hluthafi í FL-Group, segir að stjórnarmenn FL-Group hafi í aðdraganda bankahrunsins 2008 notfært sér félagið, stolið úr þvi og hreinlega eyðilagt það. Hann segir að gögn sem hann hafi fengið í hendur frá lögreglu sýni fram á einbeittan ásetning til afbrota í hagnaðarskyni.
„Ætluðu þeir að valda félaginu tjóni, það er að segja ætluðu þeir að stela af félaginu og stela af öðrum hluthöfum?“ segir Viljálmur og kveðst telja að svo hafi verið. Önnur ályktun verði ekki dregin af gögnunum.
Gögnin sem um ræðir færa, að því er fram kom í Viðstkiptablaðinu á fimmtudag, sönnur á að viðskipti með Sterling-flugfélagið og stofnun Northern Travel Holding voru fyrst og fremst gerð til að falsa eiginfjárstöðu og fegra efnahagsreikninga þeirra félaga sem að viðskiptunum komu.
Helgi
Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, sagði í samtali við
Morgunblaðið 21. apríl síðastliðinn að millifærslan sem væri
rannsökuð sem alvarlegt efnahagsbrot.
„Það var ekkert eðlilegt hvernig menn tóku þessa tuttugu milljarða [söluverð Sterling] og skiptu þeim á milli sín,“ segir Vilhjálmur. Hann segir að ótilhlýðileg vinnubrögð og starfshættir innan félagsins hafi þó ekki verið bundin við þetta mál, þeirra hafi gætt víðar, í töluverðan tíma og margir hafi beðið tjón.
„Og hverjir eru tjónþolar í þessu máli? Það eru hluthafarnir og það eru lánadrottnar, meðal annars lífeyrissjóðir. Það er verið að skerða lífeyrisréttindi landsmanna,“ segir Vilhjálmur.
„Ég byrjaði nú á því að gera athugasemdir við Sterling-málið árið 2006
þannig að ég er búinn að halda þessu vakandi nokkuð lengi,“ segir
Vilhjálmur og kveðst meðal annars hafa gert athugasemdir við lán til
Fons sem fjármagna átti kaup á Sterling og verðlagningu á
sama félagi. Árin 2007 og 2008 gerði hann einnig athugasemdir við
rekstur FL-Group.
„Ég beið tjón á mörgum vígstöðvum, ég beið tjón í lífeyrissjóðum, ég beið tjón á hlutafjáreign, ég beið tjón á hlutabréfaeign í bönkum því þetta rústaði til dæmis Glitni. Auðvitað hafði þetta mikil áhrif út á við, keðjuverkandi áhrif,“ segir Vilhjálmur um tjón sitt en segir ekki skipta máli nákvæmlega hve mikið tjón hann mátti sjálfur þola.
Vilhjálmur segist hafa verið í miklu sambandi við lögmenn í tengslum við málið en kveður ekki liggja fyrir hvenær frekari hreyfinga á málinu er að vænta. Skoða þurfi það ofan í kjölinn og vanda undirbúning þess áður en það fer fyrir dómstóla.