Brian Lenihan, fjármálaráðherra Írlands, sagði í dag að gríðarlegar skuldir írska bankans Anglo Irish Bank muni ekki setja írska ríkið á höfuðið. Forstjóri bankans sagði í blaðaviðtali um helgina, að Evrópusambandið vildi helst að bankinn yrði gerður gjaldþrota.
„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir í raun: Þessi banki hefur tapað 25 milljörðum evra og á ekki skilið að lifa, og þeir hafa rétt fyrir sér," hafði Sunday Business Post eftir Mike Aynsley, forstjóra Anglo Irish Bank.
Brian Cowen, forsætisráðherra Írands, sagði í síðustu viku að ef bankinn yrði gerður upp myndi það kosta írska skattgreiðendur 70 milljarða evra.
Anglo Irish Bank var þjóðnýttur í byrjun ársins 2009. Hann tapaði 12,7 milljörðum evra á síðasta ári, sem var mesta tap eins fyrirtækis í sögu Írlands. Á fyrri hluta þessa árs nemur rekstartap bankans 8,2 milljörðum evra.
Brian Lenihan sagði við írska útvarpið RTE í dag, að írska ríkið réði við tap bankans en eðlilegt væri að fólk velti fyrir sér áhrifunum á írska ríkið og hvort hætta væri á gjaldþroti þess. Sú hætta hefði raunar vofað yfir allt frá september 2008.