Dregur úr halla ríkissjóðs

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

Á 2. ársfjórðungi 2010 var tekjuhalli hins opinbera 30 milljarðar króna samanborið við um 42 milljarða króna tekjuhalla á sama tíma 2009.

Sem hlutfall af landsframleiðslu ársfjórðungsins mældist tekjuhallinn nú 8% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 18,6%. Á sama ársfjórðungi 2009 mældist tekjuhallinn 11,1% af landsframleiðslu og 28,3% af tekjum hins opinbera.

Hagstofan, sem birti þessar tölur í morgun, segir að þessi bætta afkoma skýrist fyrst og fremst af auknum skatttekjum sem hafi hækkað verulega milli umræddra tímabila á sama tíma og dregið hafi verulega úr fjárfestingu hins opinbera eða um tæplega þriðjung. 

Heildartekjur hins opinbera námu 162 milljörðum króna á 2. ársfjórðungi 2010 samanborið við 147 milljarða króna á sama tíma 2009 og hækkuðu um 10,2% milli ára. Hagstofan segir, að tekjuhækkunin skýrist fyrst og fremst af 6,6 milljarða króna auknum tekjum af tryggingagjöldum milli ára og um 5,7 milljarða króna meiri tekjum af tekjusköttum.

Á sama tíma jukust heildarútgjöld hins opinbera um 2,3% milli árs-fjórðunganna eða úr tæplega 189 milljörðum króna 2009 í ríflega 193 milljarða króna 2010. Útgjaldahækkunin skýrist að mestu af 8,6 milljarða króna auknum vaxtakostnaði hins opinbera og 3,7 milljarðar króna vexti í kaupum á vöru og þjónustu, en á móti vegur 4,4 milljarðar króna minni fjárfestingarkostnaður og 3,7 milljarða króna lækkun í félagslegum tilfærslum til heimilanna. 

Ríkið skuldar 1636 milljarða

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1636 milljörðum króna í lok 2. ársfjórðungs 2010 eða sem samsvarar 106% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Að teknu tilliti til peningalegra eigna var hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, neikvæð um 546 milljarða króna í lok þessa ársfjórðungs eða sem svarar til 35,4% af áætlaðri landsframleiðslu ársins.

Til samanburðar var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um 27,5% af landsframleiðslu á sama ársfjórðungi 2009 en aftur jákvæð um 2,5% af landsframleiðslu á þeim ársfjórðungi 2008. Samkvæmt þessu hefur hrein peningaleg eign ríkissjóðs því versnað um 583 milljarða króna á tveggja ára tímabili eða um 37,8% af landsframleiðslu.

Fjármál hins opinbera á 2. ársfjórðungi 2010 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK