Hlutabréf danska Amagerbankans tvöfölduðust í verði í upphafi viðskipta í dönsku kauphöllinni í morgun. Er það rakið til frétta af nýjum samningum, sem danska ríkið hefur gert við bankann.
Gengi bréfa bankans hækkaði úr 8,50 dönskum krónum í 17 krónur á fyrstu mínútum viðskipta. Á föstudag hækkaði gengi bréfa bankans einnig mikið, eða um 37%.
Á föstudag tilkynnti Finansgruppen, sem á stóran hlut í bankanum, að til stæði að auka eigin fé Amagerbankans. Þá tilkynnti bankinn seint á föstudag, að samið hefði verið um nýja skilmála við ríkið vegna þess fjár, sem ríkið hefur þegar lagt bankanum til. Meðal annars getur ríkið ekki lengur krafist þess að skuldinni verði breytt í hlutafé.
Þetta þykir benda til þess, að það takist að bjarga bankanum frá falli og það takist að selja nýtt hlutabréf, sem bankinn ætlar að gefa út.
Amagerbankinn tilkynnti í júlí, þegar hann birti milliuppgjör, að hætta væri á að bankinn verði gjaldþrota þar sem honum hefði ekki tekist að afla 750 milljóna danskra króna tryggingar, sem danska ríkið krafist fyrir 13,5 milljarða danskra króna fjárframlagi.Á fyrri hluta ársins var tap á rekstri bankans 478,2 milljónir danskra króna en á sama tímabili í fyrra tapaði bankinn 415 milljónum. Bankinn afskrifaði m.a. útlán upp á 590 milljónir danskra króna.