Fundu heitt vatn í Ungverjalandi

Mannvit verkfræðistofa
Mannvit verkfræðistofa

Íslenska fyrirtækið Mannvit fann í síðustu viku heitt vatn í nágrenni borgarinnar Miskolc í Ungverjalandi, en Mannvit hefur síðustu ár starfað sem ráðgjafi ungverska orkufyrirtækisins Pannergy við jarðhitaverkefni þar í landi.

Í tilkynningu frá Mannviti kemur fram, að boranir hófust við Miskolc síðastliðið vor og í síðustu viku fannst heitt vatn á ríflega tveggja kílómetra dýpi. Fyrstu mælingar bendi til að borholan gefi á bilinu 70-90 sekúndulítra af 110-120 gráðu heitu vatni sem sé talsvert framar vonum og bendi til að svæðið muni skila meiri nýtanlegum jarðvarma en áætlanir gerðu ráð fyrir.
 
Mannvit annaðist allar nauðsynlegar jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir vegna  staðsetningar á borholunni og hönnun hennar. Mannvit hafði jafnframt umsjón og eftirlit með sjálfri borframkvæmdinni, mati á afköstum holunnar og þróun svæðisins hvað varðar frekari boranir.
 
Þetta er í annað skipti sem Mannvit finnur heitt vatn í Ungverjalandi sem ráðgjafi Pannergy, en síðasta haust fannst heitt vatn nálægt bænum Szentlörinc í suðvesturhluta landsins.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lagði í sumar  ásamt Pál Kovács, vararáðuneytisstjóra þróunarmálaráðuneytis Ungverjalands, og Márk Győrvári, borgarstjóra Szentlörinc, hornstein að hitaveitu Szentlörinc sem hönnuð var af Mannviti fyrir Pannergy. Hún verður sú stærsta í Ungverjalandi sem notar alfarið endurnýjanlega og umhverfisvæna orku og leysir af hólmi núverandi gashitun. 

Í tilkynningunni kemur fram, að hönnun og bygging hitaveitunnar hafi ekki aðeins þýtt aukin umsvif fyrir Mannvit heldur hafi fleiri íslensk fyrirtæki tekið þátt í verkefninu. Til að mynda hafi íslensk fyrirtæki selt Pannergy stýribúnað í stöðvarhús hitaveitunnar og djúpdælur í vinnsluholurnar.
 
Miskolc í austurhluta Ungverjalands er ein af þremur stærstu borgum landsins með um 200.000 íbúa. Áætlanir Pannergy gera ráð fyrir að í fyrsta áfanga verksins verði byggð hitaveita sem þjónar allt að 15.000 manns. Miðað við reynsluna frá Szentlörinc gætu opnast fleiri tækifæri fyrir íslensk þekkingarfyrirtæki á sviði jarðvarma við hönnun og byggingu hitaveitu í Miskolc.
 
Mannvit opnaði skrifstofu í Búdapest árið 2008 til að fylgja eftir verkefnum í Mið-Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK