Riftunarmál þrotabús fjárfestingafélagsins Fons á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í júlí 2008 var einn milljarður króna færður af reikningum Fons yfir á persónulegan tékkareikning Jóns Ásgeirs í tveimur greiðslum.
Pálmi Haraldsson, annar fyrrverandi eigenda Fons, sagði í skýrslutöku hjá skiptastjóra Fons að millifærslan hefði verið vegna samnings um lán til félags í eigu Jóns Ásgeirs sem hét Þú Blásól. Svo virðist sem peningarnir hafi aldrei ratað inn á reikninga Blásólar. Að sama skapi var lánið afskrifað strax í febrúar 2009, meira en tveimur árum fyrir gjalddaga þess.
Við fyrirtöku málsins í gær var lagður fram hluti þeirra skjala sem slitastjórn Glitnis lagði fram fyrir dómstólum í New York og London á hendur Jóni Ásgeiri, Pálma og fleirum. Málarekstur slitastjórnarinnar snýst að miklu leyti um viðskiptafléttu með fyrirtækið Aurum Holdings. Milljarðurinn sem var millifærður á Jón Ásgeir í júlí 2008 kom upphaflega til ráðstöfunar Fons vegna sex milljarða láns til félags í eigu Fons, FS38 ehf. Það lán fékk félagið til að kaupa umrædda hluti í Aurum af Fons. Þrotabú Fons hefur sagt í fjölmiðlum að viðskiptin sem um ræðir hafi verið til málamynda.
Athygli vakti fyrr á þessu ári þegar lögmaður Jóns Ásgeirs keypti kröfu á Fons af Skeljungi, en þá öðlaðist hann rétt til þess að sitja kröfuhafafundi Fons þar sem riftunarmál eru jafnan til umræðu. Skiptastjóri Fons brást við með því að greiða upp umrædda kröfu, með samþykki allra annarra kröfuhafa.