Landsframleiðsla á Íslandi dróst mun meira saman á öðrum ársfjórðungi en hjá öðrum þeim Evrópulöndum sem verst hafa orðið úti í kreppunni, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands og Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Sem kunnugt er birti Hagstofan í fyrradag tölur yfir landsframleiðslu á Íslandi, en þar kom fram að hún hefði dregist saman um 8,4% á öðrum fjórðungi ársins, borið saman við sama ársfjórðung 2009. Á fyrsta fjórðungi ársins dróst framleiðslan saman um 6,8%. Báðar tölur eru hærri en hjá þeim Evrópuþjóðum, sem taldar eru hafa orðið verst fyrir barðinu á fjármálakreppunni.
Nálægt núllinu í Ungverjalandi
Þannig var 0,1% hagvöxtur í Ungverjalandi á öðrum fjórðungi, en Ungverjar hafa að undanförnu átt í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þótt það samstarf sé nú í uppnámi. Litháar, sem íhugað hafa að selja ríkiseignir til að bæta stöðu ríkissjóðs, nutu 1,4% hagvaxtar á fjórðungnum. Hagvöxtur nágranna þeirra við Eystrasaltið, Letta, var neikvæður um 3,9%. Þeir hafa einsett sér það að ná fjárlagahalla niður fyrir 3% af landsframleiðslu árið 2012. Neyðarlánasamningur sem Lettar gerðu við AGS árið 2008 gerir ráð fyrir því að þeim yrði veitt lán upp á alls 7,5 milljarða evra. Skilyrði fyrir lánveitingunni er 750 milljón evra niðurskurður í ríkisfjármálum nú í ár og í fyrra.
Árangur í Grikklandi
Hagkerfi Grikkja, sem hafa verið í sviðsljósinu vegna erfiðrar skuldastöðu og þröngrar stöðu ríkissjóðs, dróst saman um 3,5%. Grikkjum var sem kunnugt er veittur aðgangur að lánalínu frá öðrum Evrópusambandsríkjum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp á 120 milljarða evra. Skuldir ríkissjóðs Grikklands voru 115% af landsframleiðslu, en munu hækka í 150% þegar það hefur dregið á allar lánalínur. Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og gjaldeyrismála innan Evrópusambandsins, segir að Grikkir hafi náð töluverðum árangri í ríkisfjármálum á fyrri hluta ársins.
Ekki eru tiltækar hagvaxtartölur fyrir Írland, eitt skuldsettasta ríki álfunnar, en á fyrsta fjórðungi dróst landsframleiðslan saman um 0,6%, á sama tíma og hún dróst saman um 6,8% á Íslandi, sem fyrr segir.
Að meðaltali nam hagvöxtur á evrusvæðinu 1,9% á öðrum ársfjórðungi og sama meðaltal var innan Evrópusambandsins.