Bankarnir ekki á ábyrgð ríkisins

Íslenska ríkið hefur ávallt staðið við allar sínar alþjóðlegu skuldbindingar og greitt að fullu þau lán sem það hefði tekið. Þetta kom kom fram í ræðu forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar á fundi í Kína í morgun. Helstu orsakir fjármálakreppunnar á Íslandi hefðu verið bundnar við óábyrga lánastarfsemi þriggja einkabanka, einkum í öðrum löndum. Einkabanka sem ekki voru á ábyrgð ríkisins.

Ólafur Ragnar  flutti í morgun setningarræðu á sérstökum fundi sem haldinn var á alþjóðaþingi Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNCTAD, en það er haldið í Xiamen í samvinnu við kínversk stjórnvöld. Fundinn sem fjallaði um ábyrga fjármálastjórn ríkja sóttu áhrifamenn í fjármálum og efnahagsmálum víða að úr veröldinni, sem og sérfræðingar í alþjóðlegum fjármálamarkaði, fulltrúar banka og fjármálafyrirtækja.

Óábyrg stefna bankanna hafði í för með sér margvíslega erfiðleika

Í setningarræðunni lagði Ólafur Ragnar áherslu á að endurskipulagning hins alþjóðlega fjármálakerfis yrði byggð á ábyrgri fjármálastefnu ríkja, samvinnu og stöðugleika. Hann varaði við þeim hættum sem mikil skuldasöfnun hefði í för með sér. Þær hefðu áður fyrr verið bundnar við þróunarríki en settu nú svip á vanda ýmissa Evrópuríkja, samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu.

„Íslenska ríkið hefði ávallt staðið við allar sínar alþjóðlegu skuldbindingar og greitt að fullu þau lán sem það hefði tekið. Helstu orsakir fjármálakreppunnar á Íslandi hefðu verið bundnar við óábyrga lánastarfsemi þriggja einkabanka, einkum í öðrum löndum. Hún hefði haft í för með sér margvíslega erfiðleika fyrir íslenskt efnahagslíf, fyrirtæki og heimilin í landinu og leitt til tímabundinnar skuldasöfnunar ríkisins. Aðalatriðið væri hins vegar að hér hefði verið um að ræða einkabanka sem ekki hefðu verið á ábyrgð ríkisins," sagði Ólafur Ragnar, samkvæmt tilkynningu, sem embætti forseta Íslands sendi til fjölmiðla í dag. 

Gaumgæfa vel hverjir beri ábyrgð á lánum

Ólafur Ragnar sagði, að íslenskt efnahagslíf væri að styrkjast á nýjan leik, einkum vegna kraftmikils útflutnings sem byggði á öflugum sjávarútvegi, nýtingu hreinnar orku, upplýsingatækni og iðnaðarframleiðslu; einnig hefði ferðaþjónustan reynst afar drjúg.

Sagði forsetinn mikilvægt, að stjórnvöld í öllum löndum legðu nú grunn að traustri og ábyrgri fjármálastefnu, bæði einkaaðila og hins opinbera. Það ætti ekki síst við um lánadrottna sem yrðu að gaumgæfa vel hverjum þeir lánuðu, ganga úr skugga um að tryggingar væru traustar, því ábyrgðin á lánunum væri bæði hjá þeim sem tækju þau og hinum sem veittu lánin.

Fréttatilkynningin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK