Danski bankinn FIH Erhvervsbank staðfesti nú síðdegis, að söluferli stæði yfir en danskir fjölmiðlar sögðu fyrr í dag, að danskir lífeyrissjóðir og breskur fjárfestingarsjóður ættu í tilboðastríði um bankann, sem er sá sjötti stærsti í Danmörku.
Henrik Sjøgreen, framkvæmdastjóri FIH, sendi tilkynningu til kauphallarinnar í Kaupmannahöfn vegna orðróms um tilboðastríð, eins og það er orðað. Segist Sjøgreen geta staðfest að söluferli standi yfir en að öðru leyti hafi hann ekki upplýsingar um málið.
Fram kom í dag, að tveir lífeyrissjóðir, ATP og PFA, hafa gert samkomulag um að standa saman að tilboði í FIH. Þetta staðfesti talsmaður ATP við Ritzau fréttastofuna og jafnframt að tilboðastríð stæði yfir við breska fjárfestingarsjóðinn Triton.
FIH Erhversvbank er í eigu skilanefndar Kaupþings en veðsettur Seðlabanka Íslands. Stjórnendur FIH hafa ítrekað sagt að fjármálahrunið á Íslandi hafi engin áhrif haft á stöðu og rekstur bankans en FIH var að fullu í eigu Kaupþings áður en íslenski bankinn féll.