Orkuveita Reykjavíkur og dótturfyrirtæki hennar, Gagnaveitan, hafa frá árinu 2004 varið 7,8 milljörðum króna til uppbyggingar á ljósleiðaraneti í borginni og í aðrar fjárfestingar. Þessar fjárfestingar hafa á sama tímabili skilað um 3,5 milljörðum króna til baka í formi tekna.
Haraldur Flosi Tryggvason, starfandi stjórnarformaður Orkuveitunnar, sagði í samtali við Morgunblaðið að Gagnaveitan og útgjöld hennar væru einn þeirra rekstrarþátta OR sem kæmu til skoðunar við endurskipulagningu fyrirtækisins.
Á fyrri helmingi þessa árs námu fjárfestingar Gagnaveitunnar 393,3 milljónum króna, sem er tíu milljónum hærri upphæð en varið var til fjárfestinga fyrirtækisins á sama tímabili í fyrra. Allt árið í fyrra varði Gagnaveitan 675 milljónum króna í fjárfestingar og miðað við það stefnir allt í að fjárfestingar fyrirtækisins í ár muni nema alls ríflega 690 milljónum króna.
Hafa ber í huga að þrátt fyrir að fjárfestingar Gagnaveitunnar hafi verið jafnmiklar í fyrra og raun ber vitni voru þær þó umtalsvert minni en árin á undan. Frá árinu 2004 hefur Orkuveitan, eða dótturfyrirtækið, aldrei varið undir einum milljarði króna á ári í fjárfestingar. Árið 2006 námu fjárfestingar til gagnaveitu 1,8 milljörðum króna og árið 2008 námu þær 1,5 milljörðum króna.
Tekjur af gagnaveitu Orkuveitunnar hafa aldrei jafnast á við það fé sem varið er í fjárfestingar, ef undan er skilið árið í fyrra. Þá námu tekjur tæpum 800 milljónum króna og voru því um 125 milljónum króna hærri en fjárfesting það ár. Í heildina hefur fjárfesting á þessu sviði hins vegar verið ríflega tvöfalt meiri en tekjur af Gagnaveitunni, eins og áður segir.