Metnar á allt að tuttuguföldu raunvirði

Jón Sigurðsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson tóku allir …
Jón Sigurðsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson tóku allir þátt í NTH fléttunni ef marka má greinar Viðskiptablaðsins mbl.is/Golli

Eignir voru metnar á allt að tuttuguföldu verði þegar félagið Northern Travel Holding keypti eignir af FL Group og Fons á sínum tíma. Sá gjörningur að ofmeta eignir í viðskiptum milli þekktra viðskiptafélaga getur leyst margskonar skammtímavanda og búið til gríðarlegan hagnað á pappírnum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í hluta tvö í greinarflokki sem Viðskiptablaðið birtir um FL Group og viðskipti þess félags. Er greinarflokkurinn byggður á tölvupóstgögnum sem lögreglan lagði hald á við húsleit hjá fyrirtækinu og tengdum aðilum.

Með því að færa eignir inn í félög sem einungis eru sköpuð til að „hýsa“ viðkomandi eignir geta stærri fjárfestingarfélög losnað við eignirnar af efnahagsreikningi sínum.

Vegna þessa gat FL Group til dæmis bókfært að Sterling hefði verið selt á 20 milljarða króna, fengið sex milljarða króna greidda í reiðufé og bókfært 14 milljarða króna seljendalán sem eign á efnahagsreikningi sínum. Þannig hækkaði eignarhluti reikningsins um 20 milljarða króna þrátt fyrir að raunvirði Sterling hefði í besta falli verið brotabrot af þeirri upphæð á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram, samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins.

Gríðarlegar breytingar á virði Iceland Express milli ára

Ticket fór inn í NTH fyrir rúman milljarð króna í árslok 2006. Í ágúst 2008 var síðan tilkynnt að Fons hefði keypt hlutinn af NTH á 700 til 800 milljónir króna, þrátt fyrir að gengi bréfa í félaginu hefði hríðfallið og stæði í rúmum 7 krónum á hlut.

Fons eignaðist Iceland Express upphaflega haustið 2004 með því að greiða stofnendum félagsins um fimmtán milljónir króna og auka hlutafé þess um 250 milljónir króna. Eftir það átti Fons 89% hlut í flugfélaginu.

Iceland Express var síðan metið á sex milljarða króna, af Fons og stjórnendum FL Group, þegar félagið var fært inn í NTH þann 26. desember 2006. Virði félagsins hafði þá rúmlega tuttugufaldast á tveimur árum þrátt fyrir að um 118 milljóna króna tap hefði verið á rekstrinum árið 2006 og að eigið fé þess hafi verið neikvætt um 208 milljónir króna.

Heildareignir Iceland Express voru sagðar vera um 572 milljónir króna, tæpur þriðjungur af kaupverðinu. Arðgreiðslur á grundvelli ofmats NTH greiddi ekkert í reiðufé fyrir Iceland Express heldur veitti Fons félaginu seljendalán fyrir milljörðunum sex. Því skiptu í raun engir fjármunir um hendur en Fons var gert kleift að bókfæra virði Iceland Express á sex milljarða króna, segir í grein Viðskiptablaðsins.

Í krafti góðrar eignarstöðu greiddi Fons sér síðan út 4,4 milljarða króna arð, en sú eignarstaða grundvallaðist meðal annars á seljendaláninu. Arðgreiðslan fór til Matthews Holdings S.A., félags í eigu Pálma og Jóhannesar Kristinssonar sem skráð er í Lúxemborg.

Fons eignaðist NTH að fullu á árinu 2008 og var aftur orðinn eigandi flugfélagsins. Hinn 24. nóvember 2008, hálfum mánuði eftir bankahrun, var Iceland Express síðan „keypt“ út úr Fons. Kaupandinn var Fengur, eignarhaldsfélag í eigu Pálma. Kaupin fóru þannig fram að hlutafjáraukning átti sér stað í Iceland Express.

Pálmi skráði sig fyrir henni allri og greiddi 300 milljónir króna fyrir. Eftir það átti hann 92% í félaginu. Landsbankinn á það sem upp á vantar. Verðmiðinn á Iceland Express hafði því skroppið aftur saman og virði félagsins aftur orðið í kringum 300 milljónir króna, eða tuttugu sinnum lægra en NTH greiddi fyrir það. Fons var úrskurðað gjaldþrota í apríl 2009. Félagið reyndist þá nánast eignarlaust en skuldaði um 40 milljarða króna.

Astraeus  fatast flugið

Astraeus er breskt flugfélag sem Fons keypti 51% hlut í í október 2006. Félagið sérhæfir sig í að leigja öðrum flugfélögum vélar og sér Iceland Express meðal annars fyrir flugvélakosti. Kaupverðið var ekki gefið upp. Tveimur mánuðum eftir kaupin var eignarhluturinn í Astraeus færður inn í NTH fyrir 642 milljónir króna og var greitt fyrir með reiðufé.

Fons fékk því samtals tæpan milljarð króna greiddan út úr NTH-snúningnum með reiðufé. Fons eignaðist síðar Astraeus að fullu. Eftir bankahrun, og áður en Fons var sett í gjaldþrotaskipti, keypti Fengur, félag í eigu Pálma Haraldssonar, Astraeus af Fons á 50 þúsund pund, eða um 9,3 milljónir króna á núvirði, samkvæmt grein Viðskiptablaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka