90 fasteignir seldar á höfuðborgarsvæðinu

Fasteignasala hefur aukist mikið undanfarnar vikur
Fasteignasala hefur aukist mikið undanfarnar vikur mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls voru seldar níutíu fasteignar á höfuðborgarsvæðinu frá 3. september til 9. september, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá. Er það mikil aukning því að meðaltali hafa selst 57 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu síðustu tólf vikur. Flestar fasteignirnar eru í fjölbýli eða 66.

Fasteignasalar finna mikla breytingu á markaðnum og segja hann kominn á mikið skrið. Mikið sé um nýskráningar fasteigna og fjölmargir vilji stækka við sig.

Mun fleiri sölur í undirbúningi

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, segir algjöran viðsnúning hafa orðið í fasteignasölu eftir verslunarmannahelgina og markaðurinn allt annar en áður. Hún segir að verið sé að ganga frá mun fleiri samningum heldur en þessar tölur bendi til þar sem ýmislegt þurfi að gera áður en kaupsamningi er þinglýst.

Hún segir að fasteignaverð hafi að sjálfsögðu lækkað frá því það fór hæst í ársbyrjun 2008 en hún eigi ekki von á að það lækki meira en það hafi þegar gert. Fasteignavísitalan sé um 300 og eigi væntanlega eftir að hækka á ný. 

Ingibjörg segist ekki hafa trú á öðru en reynt verði að koma í veg fyrir holskeflu nauðungaruppboða á fasteignum. Meðal annars með því að lengt verði í lánum fasteignaeigenda. Allir þurfi á heimilum að halda og því verði ekki sundrað átölulaust.

19 samningar voru um sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og 5 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 2.309 milljónir króna og meðalupphæð á samning 25,7 milljónir króna.

Ekki mikil breyting á meðalverði fasteigna

Ef litið er til síðustu ára þá voru seldar 47 fasteignir á tímabilinu 4.- 10. september í fyrra og var meðalverð fasteignar 26,3 milljónir króna. Heildarverðmæti samninganna var 1.238 milljónir króna.

Árið 2008 voru seldar 79 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu 5.-11. september. Var meðalverð fasteignar 29,2 milljónir króna en heildarvirði þeirra 2.311 milljónir króna.

7.-13. september 2007 voru seldar 197 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu. Meðalverð fasteignar var 27,6 milljónir króna og heildarsöluverð þeirra 5.445 milljónir króna.

Lítil sala á Suðurnesjum

Á sama tíma var 3 kaupsamningum þinglýst á Suðurnesjum. Þar af var 1 samningur um eignir í fjölbýli og 2 samningar um sérbýli. Heildarveltan var 42 milljónir króna og meðalupphæð á samning 14,1 milljón króna.

Á sama tíma var 6 kaupsamningum þinglýst á Akureyri. Þar af voru 3 samningar um eignir í fjölbýli og 3 samningar um sérbýli. Heildarveltan var 102 milljónir króna og meðalupphæð á samning 17 milljónir króna.

Á sama tíma var 2 kaupsamningum þinglýst á Árborgarsvæðinu. Þar af var 1 samningur um eignir í fjölbýli og 1 samningur um sérbýli. Heildarveltan var 39 milljónir króna og meðalupphæð á samning 19,5 milljónir króna, samkvæmt vef Þjóðskrár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Óskar Guðmundsson: 30%
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK