Tekjuafkoma hins opinbera, ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga, var neikvæð um 149 milljarða króna árið 2009, eða sem nemur 9,9% af landsframleiðslu og 24,3% af tekjum þess. Til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 13,5% af landsframleiðslu 2008 en jákvæð um 5,4% árið 2007.
Hagstofan segir, að án 192 milljarða króna skuldayfirtöku ríkissjóðs hafi tekjuhalli hins opinbera verið 8 milljarðar króna 2008 eða 0,6% af landsframleiðslu.
Hagstofsan segir, að þessi óhagstæða þróun frá 2008 skýrist fyrst og fremst af miklum samdrætti í hagkerfinu, en hagvöxtur var neikvæður um 6,8% árið 2009, ásamt auknum útgjöldum vegna mikillar skuldsetningar og aukins atvinnuleysis. Skatttekjur drógust saman um 41 milljarð króna á milli ára á sama tíma og vaxtagjöldin jukust um 49 milljarða króna, félagslegar tilfærslur til heimilanna um 32 milljarða og samneyslan um 27 milljarðar króna, en hún dróst saman um 1,7% að magni til á árinu.
Heildartekjur hins opinbera614 milljörðum króna 2009 og lækkuðu um rúmlega 39 milljarða króna milli ára eða 6%. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 40,9% samanborið við 44,2% árið 2008 og 47,9% árið 2007, en fara þarf aftur til ársins 1998 til finna lægra hlutfall af landsframleiðslu.
Útgjöld hins opinbera voru rúmlega 763 milljarðar króna árið 2009 og lækkuðu um 90 milljarða króna milli ára, eða úr 57,8% af landsframleiðslu 2008 í 50,9% 2009. Að 192 milljarða króna skuldayfirtöku ríkissjóðs 2008 undanskilinni hækkuðu útgjöld hins opinbera um 102 milljarða króna milli ára.