Fulltrúar seðlabanka og fjármálaeftirlitsstofnana heimsins náðu samkomulagi í dag um nýjar alþjóðlegar kröfur um eiginfjárhlutfall bankastofnana.
Lágmark svokallaðs eiginfjárhlutfalls A (e. tier one capital ratio) verður hækkað úr tveimur prósentum í 4,5 prósent og svo verður í fyrsta skipti gerð krafa um 2,5 prósenta varúðarhlutfall.
Í raun hækkar lágmarks eiginfjárhlutfall því úr tveimur prósentum í sjö prósent. Sé eiginfjárhlutfall banka undir sjö prósentum en yfir 4,5 prósentum þarf hann að sæta takmörkunum á greiðslu arðs til hluthafa og bónusgreiðslna til starfsmanna.
Nýju reglurnar munu taka gildi árið 2013 og munu bankar hafa til ársins 2018 til að aðlaga efnahagsreikninga sína að nýju kröfunum.