Arion banki hefur ákveðið að færa rekstrarfélag 10-11 út úr Hagasamstæðunni og selja í opnu söluferli. Er gert ráð fyrir að fyrirtækið fari í sölu á næstu mánuðum og segist bankinn hafa orðið þess áskynja að undanförnu, að mikill áhugi sé á félaginu.
Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka, að með þessum breytingum fækki matvöruverslunum í eigu Haga um röskan þriðjung. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningunni, að það sé auðvitað ákveðinn liður í endurreisn íslensks viðskiptalífs að koma verslunum Haga í eðlilegan farveg. Með því að selja 23 verslanir 10-11 sér gefist fleiri aðilum kostur á að koma inn á íslenska matvörumarkaðinn.
Undirbúningur að sölunni hófst fyrr á þessu ári þegar Högum var kipt upp í Haga verslanir ehf. og Rekstrarfélag 10-11 ehf. Miðaðist sú skipting við 1. mars. Var siðarnefnda félagið síðan flutt í Eignabjarg ehf., eignarhaldsfélag Arion banka.
Eignabjarg hefur falið fyrirtækjaráðgjöf bankans að hefja undirbúning að sölu á öllum hlutum eignarhaldsfélagsins í rekstrarfélagi 10-11. Unnið er að aðskilnaði félagsins frá Hagasamstæðunni og gert er ráð fyrir að tilkynnt verði um endanlega tilhögun og framkvæmd söluferlis á næstu vikum.
Verslanir 10-11 hafa verið reknar frá árinu 1991 og verið hluti af Hagasamstæðunni frá árinu 1999. Nú eru reknar 23 verslanir undir nafni 10-11 víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, í Reykjanesbæ og á Akureyri og starfa þar samtals um 230 starfsmenn.
Í sátt Samkeppniseftirlitsins og Arion banka, sem gerð var í kjölfar yfirtöku bankans á Högum, beindi Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til bankans að kanna möguleika á því að selja Haga í fleiri en einum hluta í því skyni að auka samkeppni. Þeim tilmælunum væri þó ekki ætlað að víkja til hliðar augljósum hagsmunum af því að hámarka verðmæti og tryggja hagsmuni bankans.
Segir Arion banki að sölu á 10-11 verslunum Haga sé þannig m.a. ætlað að dreifa eignarhaldi á matvörumarkaði og gefist fleiri aðilum nú kostur á að láta að sér kveða á þeim vettvangi en verið hefur. Þannig sé bankinn að koma til móts við sjónarmið samkeppni án þess að fórna fjárhagslegum hagsmunum.
Baugur keypti 10-11 árið 1999, en á þeim tíma rak fyrirtækið þrettán verslanir á höfuðborgarsvæðinu og velti þremur milljörðum á ári hverju. Leiða má líkum að því að sú velta hafi aukist verulega síðan þá. Hlutdeild 10-11 í matvöruveltu Haga er tæp 7%.
Hagar eru í eigu Arionbanka, en
bankinn leysti til sín 95,7% hlutafjár 1998 ehf., eignarhaldsfélags
Haga, síðastliðið haust.
Eftir söluna á 10-11 fækkar matvöruverslunum Haga úr 61 í 38.