Hagnaður Arion banka samkvæmt könnuðum árshlutareikningi fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2010 nam 7,9 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 17,7% á ársgrundvelli.
Með yfirtöku Kaupskila á 87% hlut í Arion banka þann 8. janúar 2010 styrktist eiginfjárstaða bankans þar sem Kaupskil lagði bankanum til nýtt eigið fé ásamt því að ríkið veitti bankanum víkjandi lán upp á 29 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall bankans þann 30. júní 2010 var 16,4% en Fjármálaeftirlitið krefst þess að hlutfallið sé 16% hið minnsta.
Heildareignir Arion banka námu 842,3 milljörðum króna þann 30. júní sl. samanborið við 757,3 milljarða króna í lok árs 2009. Helstu breytingar á eignum bankans má rekja til yfirtöku Kaupskila á 87% hlut í Arion banka þann 8. janúar en þá jukust heildareignir bankans um 80,2 milljarða króna í 837,6 milljarða, samkvæmt fréttatilkynningu. Lánabók bankans óx um 112,8 ma.kr. en skuldabréfaeign lækkaði um 32,6 ma.kr. þar sem ríkið fékk 87% af hlut sínum endurgreiddan til baka.