Reykjaneshöfn er í vanskilum með skuldabréf sem var á gjalddaga 1. maí sl. Reykjaneshöfn hefur með aðstoð Reykjanesbæjar staðið í endurfjármögnun á langtímalánum Reykjaneshafnar, en lánaútboð Reykjanesbæjar hefur enn ekki borið árangur. Búið er að greiða hluta vanskilanna og semja um fullnaðar uppgjör innan tveggja mánaða.
Tafir við uppbyggingu álvers Norðuráls í Helguvík og fleiri verkefna til atvinnuuppbyggingar í Reykjanesbæ hafa átt sinn þátt í að lánaútboðið bar ekki árangur, og að lokum neikvæður fréttaflutningur af málefnum Reykjanesbæjar, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Reykjaneshöfn átti einnig von á tekjum vegna lóðagjalda í Helguvík, sem hafa enn ekki komið, en eru væntanlegar á næstu vikum. Þær eru vegna Íslenska kísilversins ehf., Norðuráls ofl. Einnig hafa óskir Reykjaneshafnar um ríkisstyrk við hafnarframkvæmdir í Helguvík ekki borið árangur.