PwC telur stefnu ekki á rökum reista

Endurskoðunarskrifstofan PricewaterhouseCoopers ítrekar þá skoðun, að stefna slitastjórnar Glitnis á hendur fyrirtækinu sé ekki á rökum reist og tilhæfulaus með öllu.

Slitastjórn Glitnis lagði í vikunni fram greinargerðir fyrir dómstóli á Manhattan þar sem færð eru rök gegn kröfu PwC um að málinu verði vísað frá. Lagði slitastjórnin meðal annars fram  yfirlýsingu frá fyrrverandi varaformanni siðanefndar Alþjóðasambands endurskoðenda, sem lýsti þeirri skoðun sinni að PwC hefði vikið frá viðurkenndum stöðlum og fyrirtækið því gerst sekt um vanrækslu með því að upplýsa ekki kaupendur skuldabréfa Glitnis í New York haustið 2007 um lán bankans til eigenda og tengdra aðila.

Í tilkynningu frá PricewaterhouseCoopers segir, að málið sé nú í höndum dómstólsins og fyrirtækið sjái sér því ekki fært að tjá sig opinberlega um einstök atriði þess en það telji stefnuna gegn PwC ekki á rökum reista og því tilefnislausa með öllu.

Félagið muni halda uppi vörnum af fullum krafti og þess sé vænst að dómstóllinn í New York vísi málinu frá.

„Vakin er athygli á að fyrir liggur samningur milli PwC og Glitnis banka hf. þar sem skýrt er kveðið á um að rísi ágreiningur um störf PwC skuli þeim ágreiningi skotið til íslenskra dómstóla. Þessi samningur er enn í fullu gildi þó svo stefnendur kjósi af einhverjum ástæðum að líta framhjá honum," segir í tilkynningu PwC, sem Vignir Rafn Gíslason, stjórnarformaður, skrifar undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK