Arion banki þarf að leggja Högum til milljarða króna í formi eiginfjárstyrkingar áður en félagið verður sett í formlegt söluferli.
Þetta er mat sérfræðinga á matvörumarkaði sem Morgunblaðið ræddi við, en fram kemur í ársreikningi Haga frá því í febrúar síðastliðnum að óefnislegar eignir félagsins séu metnar á 9.664 milljónir króna, samanborið við eigið fé upp á ríflega 2,5 milljarða króna. Fer því nærri að óefnislegar eignir félagsins séu hátt í fjórfalt meiri en eiginféð.
Óefnislegar eignir eru metnar út frá væntingum um framtíðarhagnað fyrirtækja, að teknu tilliti til viðskiptavildar, vinsælda og útbreiðslu vörumerkja og í þessu tilviki staðsetningar verslana, auk annarra þátta, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.