Pálmi Haraldsson, annar aðaleigandi Fons, segir að hagnaður dótturfélags Fons, Talden Holding í Lúxemborg, hafi ekki verið nein bókhaldsleg andlitslyfting fyrir Fons. Fons hafi keypt allar helstu eignir Talden á markaðsvirði en tilgangur viðskiptanna var að færa eignirnar til íslensks félags. Um var að ræða allar helstu áhættufjárfestingar Fons erlendis.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Pálmi hefur sent á fjölmiðla.
„Í fyrstu frétt sjónvarpsfréttatíma RÚV kl. 19:00 í gærkvöldi kom fram að 40 milljarða króna hagnaður Talden Holding S.A. í Luxembourg, sem var dótturfélag Fons hf., valdi skilanefndum og slitastjórnum heilabrotum og menn velti því fyrir sér hvað hafi orðið um féð.
Nefnd viðskipti fólu ekki að neinu leyti í sér bókhaldslega andlitslyftingu fyrir Fons, gerð í þeim tilgangi að fá frekari lánafyrirgreiðslu hjá bönkunum. Allar eignir Talden voru hluti af eignum Fons í efnahagsreikningi Fons frá árinu 2004. Það er því rangt sem kom fram í fréttinni að flutningur á eignum frá Talden til Fons á árinu 2007 hafi verið forsenda fyrir arðgreiðslu Fons.
Skal það nú skýrt nánar í tilefni af þessum heilabrotum og spurningum, sem komu fram í frétt RÚV:
Fram til 30. mars 2007 voru flestar erlendar áhættufjárfestingar Fons hf. í eigu Talden. Þann dag keypti Fons allar helstu eignir Talden á markaðsverði. Kaupverðið var GBP 203.435.000, sem þá jafngilti um 25 milljörðum íslenskra króna, en jafngildir í dag miðað við gengi breska pundsins gagnvart íslensku krónunni um 40 milljörðum. Tilgangur kaupanna var að færa allar þessar eignir til íslensks lögaðila.
Við samninginn eignaðist Fons eignir Talden og Talden fjárkröfu á hendur Fons. Við slit Talden á árinu 2008 færðist krafan til eiganda félagsins, sem þá var Melkot ehf., dótturfélag Fons. Er þetta í samræmi við það sem gerist þegar félögum er slitið.
Niðurstaðan af þessum viðskiptum var því sú að allar eignir Talden fóru til í Fons.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði við vinnslu fréttar sinnar í gærkvöldi hvorki samband við mig eða nokkurn annan sem þekkir til málefna Fons. Slíkt hefði verið eðlilegt og í samræmi við almennt viðurkennda starfshætti frétta- og blaðamanna. Þær reglur virðast hins vegar ekki gilda á fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar kemur að fréttum um málefni sem tengjast mér og félögum mér tengdum, því aðdróttanir um lögbrot miða að því einu að níða niður af mér skóinn. Sennilega verð ég og fjölskylda mín að sætta okkur við þetta vinnulag fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Skilanefndir og slitastjórnir geta óskað útskýringa á öllum þessum viðskiptum hjá mér, enda hef ég ekkert að fela í þessu frekar en öðru," segir Pálmi Haraldsson í yfirlýsingu.
Talden Holding átti meðal annars hlutí Högum á sínum tíma en Baugur Group keypti árið 2007 allan eignarhlut félaganna Talden Holding SA og Orchides Holding SA í Högum. Félögin voru bæði í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar í eignarhaldsfélaginu Fons. Um var að ræða 26,3% eignarhlut í Högum.