Heildarvelta í atvinnulífinu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum jókst töluvert í maí og júní samanborið við sama tímabil í fyrra. Í krónum talið var hún 15% meiri á þessu tímabili en að teknu tilliti til verðlagsbreytinga nam aukningin 7,9%.
Þetta er í þriðja sinn í röð frá
bankahruninu árið 2008 sem aukning mælist að raunvirði í innlendri veltu
á milli ára. Frá áramótum talið hefur veltan aukist um 3,8% að
raunvirði miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta má sjá í tölum yfir
veltu fyrirtækja samkvæmt virðisaukaskattskýrslum sem Hagstofan birti nú
í morgun. Greining Íslandsbanka fjallar um þetta í Morgunkorni í dag.
„Af tölum Hagstofunnar má sjá hversu ólík þróun veltu er í hinum ýmsu atvinnugreinum sem er til marks um hversu misjöfn efnahagsleg skilyrði íslensk fyrirtæki búa við um þessar mundir. Þannig er enn mjög mikill samdráttur í mörgum greinum atvinnulífsins, og þá einna helst þeim sem tengjast innlendri eftirspurn, þ.e. fjárfestingu og einkaneyslu.
Ljóst er að samdrátturinn er enn verulegur í fyrirtækjum sem eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en eins og kunnugt er hefur veltan dregist linnulaust saman í þessum greinum í tvö ár.
Samdrátturinn á fyrri helmingi ársins nemur 38,5% að raungildi. Þó virðast aðrar greinar tengdar einkaneyslu vera að ná sér aðeins á strik. Má hér nefna að í annað sinn í röð nú í maí og júní mælist aukning í veltu að raunvirði í bílasölu, en þar hefur samdráttur mælst stöðugt síðan í byrjun árs 2008. Þó hefur veltan minnkað lítillega í bílasölu frá fyrra ári ef tekið er mið af fyrstu sex mánuðum ársins, eða um 0,7% að raungildi, þar sem samdrátturinn var það mikill á fyrstu tveimur mánuðum ársins m.v. sama tímabil í fyrra," segir í Morgunkorni.
Á hinn bóginn er velta í útflutningsgreinum ágæt og er nokkuð ljóst að þær greinar sem heyra undir útflutning eru í annarri stöðu en þær sem háðar eru innlendri eftirspurn. Þannig hefur veltan í matvæla- og drykkjavöruiðnaði, sem nær yfir bæði landvinnslu sjávarfangs og matvöruframleiðslu til innlendrar neyslu, aukist um 7,3% að raunvirði á fyrri helmingi ársins m.v. sama tíma í fyrra.
Á sama tímabili hefur veltan í fiskveiðum aukist um 6,4% og velta í framleiðslu málma um heil 50,3% sem má einna helst rekja til hækkunar á álverði. Hins vegar hefur veltan dregist saman á sama tímabili í flugsamgöngum um 3,3% og hjá fyrirtækjum í hótel- og veitingahúsarekstri um 0,1% og telja má afar líklegt að eldgosið í Eyjafjallajökli eigi þar hlut að máli.